Skellur á Þorláksmessu

Anna María Þorvaldsdóttir var í fullri vinnu sem mannauðsstjóri í 250 manna fyrirtæki, formaður í stórum samtökum, með skiptinema á heimilinu og að sjá um heilsuveilan föður, fyrir utan að halda heimili með eiginmanni sínum og þremur börnum þegar álagið varð hreinlega of mikið og hún brotnaði niður á Þorláksmessu árið 2016. Bataferlið sem tók við var langt og erfitt.

Anna María deilir sögu sinni af kulnun hér á vef VR í von um að hún geti orðið öðrum í svipuðum sporum víti til varnaðar.

 

Hvað varð til þess að þú leitaðir þér hjálpar?

Dag einn þegar ég mætti í vinnuna og þar sem ég sat við skrifborðið mitt byrjaði ég bara allt í einu að gráta. Þá stóð ég upp og sagði við sjálfa mig, hingað og ekki lengra. Nú gerir þú eitthvað af alvöru í þínum málum.

Geturðu sagt í stuttu máli frá þinni sögu?

Fjölskylda mín, vinir, læknir og samstarfsfélagar voru búin að vara mig við en ég áttaði mig ekki á einkennunum í aðdragandanum. Ég skildi ekki hvað þau voru að segja, það var jú bara mikið að gera hjá ér.

Það var svo á Þorláksmessu árið 2016 sem fyrsti skellurinn kom. Ég vaknaði um morguninn og var tilfinningalega búin á því. Ég grét allan daginn og kom engu í verk. Ég hringdi í yfirmann minn og ætlaði ekki að geta komið upp orði fyrir gráti og ekka. Við vorum sammála um að ég tæki mér frí til áramóta að jafna mig á þessu. Á þessu tímabili var ég mannauðsstjóri með mannaforráð í 250 manna fyrirtæki, með skiptinema, formaður ICF Iceland og með nema í mentor markþjálfun. Fyrir utan að vera móðir með þrjú börn, heimili og eiginmann og ekki má gleyma föður með Alzheimer.
Það var loksins þarna sem ég skildi að þetta var of mikið og ég áttaði mig á einkennunum sem allir voru búnir að benda mér á. Mér fannst ég ekki geta hlaupist burtu frá öllum þessum skuldbindingum svo ég hélt áfram í öllu og var að klára nokkur af ofangreindum verkefnum þegar næsti skellur kom. Hann var í byrjun mars 2017, þarna þar sem ég sat grátandi á skrifstofunni minni.

Varstu frá vinnu?

Ég var fyrst frá vinnu milli jóla og nýárs árið 2016. Ég fékk læknisvottorð í þrjár vikur í mars 2017 og svo ætluðum við að sjá til hvernig ég yrði. Ég hóf störf aftur í byrjun apríl, í 50% vinnu en fékk svo uppsagnarbréf í apríllok.

Hvernig var bataferlið?

Bataferlið var mjög erfitt fyrst um sinn meðan ég var að vinna mig út úr einkennunum, sársaukanum og skömminni en ég ætlaði mér að verða heilsuhraust á ný. Ég las allt á netinu sem ég kom höndum yfir um kulnun, kvíða og depurð. Skoðaði Youtube myndbönd um einkennin og birtingarmynd kulnunar. Reyndi að fá tíma hjá KMS en biðtíminn var of langur svo ég fékk mjög mikla hjálp frá heilsugæslulækni mínum og nánustu fjölskyldu og vinum. Ég skrifaði niður hvernig mér leið og keypti mér efni á netinu um hvernig hægt væri að sigrast á kulnum. Því sinnti ég alveg eins og eftir bókinni. Þessu til viðbótar var ég mjög dugleg að fara í gönguferðir og synda. Það hjálpaði á sinn hátt að vera ekki í vinnu, að þurfa ekki hafa neinar skuldbindingar.

Hvernig kom vinnustaðurinn til móts við þig?

Stelpurnar á deildinni minni svo og aðrir samstarfsmenn sýndu þessu mikinn skilning og trufluðu mig ekkert í veikindaleyfinu og leyfðu mér alveg að hvílast.

Áttu góð ráð til þeirra sem finna fyrir einkennum kulnunar en vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við?

Ástæða þess að ég segi frá sögu minni er að ég vona hún geti virkað sem forvörn fyrir aðra sem eru í svipuðum sporum og ég var í. Einkennin og birtingarmynd kulnunar eru mismunandi eftir einstaklingum. Mikilvægast er að leita sér hjálpar t.d. hjá heimilislækni, nánustu aðstandendum og þeim sem þú treystir. Það er engin skömm að finna fyrir þessum einkennum.

Allra mikilvægast er að hlusta á þá sem standa manni næst. Þau þekkja okkur og sjá breytinguna mun betur heldur en við sem erum í miðju hringiðunnar.

  

 

 

 

 

 

„Allra mikilvægast er að hlusta á þá sem standa manni næst. Þau þekkja okkur og sjá breytinguna mun betur heldur en við sem erum í miðju hringiðunnar."