Brotnaði niður á tískuvikunni í Kaupmannahöfn

Ingibjörg Reynisdóttir var stödd á tískuvikunni í Kaupmannahöfn sumarið 2017 þegar hún brotnaði niður og gat ekki meira. Hún kom að opnun norsku verslunarinnar Airport Fashion í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2015, vann út í eitt, sinnti veikri móður sinni fyrir utan að eiga fjögur börn og halda heimili. Ingibjörg segir sögu sína af kulnun hér á vef VR og vill með sögu sinni minna fólk á að gefa sér tíma fyrir sjálft sig og huga að heilsunni.


Geturðu sagt í stuttu máli frá þinni sögu?

Þegar ég tók að mér starfið hjá Airport Fashion hafði ég áður tekið þátt í að opna alþjóðlega verslun Debenhams en þetta reyndist allt öðruvísi þar sem umhverfið upp á Keflavíkurflugvelli er ólíkt öllu sem ég hafði starfað við áður. Opnunartíminn er langur og breytilegur en einnig er umhverfið svo ólíkt því sem ég þekkti. Ég er eini yfirmaður þessarar verslunar á Íslandi og er því álagið allt á mér en þar sem ég hef alltaf verið mjög vinnusöm og þrjósk þá lét ég það ekki stoppa mig. Ég vann bara meira því ég var jú svo dugleg! Eftir rúm tvö ár fór ég að finna fyrir álaginu bæði líkamlega og andlega. Ég sinnti því ekki enda hafði ég ekki tíma í það. Ég var komin með mikla vöðvabólgu, bólgur í ristli, var ofboðslega þreytt og átti erfitt með að vakna á morgnana. Á þessum tíma var ég einnig að sinna veikri móður minni sem var langt komin með Alzheimer og á milli þess að vinna, sinna henni og börnunum var ekki mikill tími til að spá í mér og hvað væri í gangi. Ég var komin með mörg einkenni kulnunar (e.„burnout“) en vildi ekki horfast í augu við það .

Hvað varð til þess að þú leitaðir þér hjálpar?

Síðasta sumar, rétt áður en ég fór í mitt „burnout“, var ég á útopnu. Það var eins og ég fyndi að eitthvað væri að gerast með mig og var hrædd um að ef ég stoppaði þá myndi ég hrynja. Ég var orðin óþolandi á heimilinu, þurfti stanslaust að vera að gera eitthvað og var með plan öll kvöld og allar helgar. Samstarfsfólk mitt var farið að hafa áhyggjur af mér í vinnunni því þau sáu, eins og fjölskyldan mín og vinir, að eitthvað var ekki í lagi hjá mér. Ég var sem sagt síðust til að fatta þetta. Eitt af einkennum mínum var að ég smekkur minn á bókum breyttist. Ég fór að lesa hryllingssögur en það hafði ég aldrei gert áður en ég hef alltaf lesið mikið. Ég var orðin svo dofin tilfinningalega en sálfræðingur sagði mér að það væri algengt einkenni að leita í tilfinninguna hræðslu þar sem hræðsla er síðasta tilfinningin sem fer hjá manni.

Í ágúst 2017 var ég stödd á tískuvikunni í Danmörku í vinnuferð þegar ég brotnaði niður. Ég komst ekki fram úr rúminu, grét mikið og gat ekki hætt. Maðurinn minn kom út til Danmerkur og sótti mig. Eftir að ég kom heim lá ég í tvo mánuði í rúminu og komst hreinlega ekki fram úr. Ég var gjörsamlega úrvinda og örmagna. Allt í einu var ég líka orðin mjög félagsfælin sem er afar ólíkt mér, ég þorði ekki út í búð eða fara í heimsókn.

Hvernig var bataferlið?

Ég á góða fjölskyldu og vini sem hjálpuðu mér mikið, komu mér til sálfræðings og til læknis og það er ómetanlegt að eiga þau að. Sálfræðingurinn vildi strax að ég færi í Hveragerði á Heilsustofnunina en ég hélt nú ekki, ég hefði ekkert þangað að gera! Sem betur fer talaði hann mig til og ég fór í mánaðardvöl þar sem var dásamlegt. Ég var heppin að komast fljótt inn þar sem Heilsustofnunin fór af stað í fyrsta skipti með fjögurra vikna námskeið fyrir fólk eins og mig sem hefur lent í kulnun. Öll sú vinna sem átti sér stað þar er ómetanleg, ég get ekki mælt nógu mikið með þessari stofnun og allt starfsfólkið þar er algjörlega upp á 10. Á hinn bóginn var þetta líka erfið dvöl þar sem ég þurfti í fyrsta skipti að díla við sjálfa mig og ég sá hvað ég hafði vanrækt sjálfa mig. Ég er ennþá að læra að segja „nei“ og setja sjálfa mig í forgang. Þetta er langt ferli að lenda í kulnun en meðaltími að ná sér er talinn vera um tvö ár. Minnið fór mikið og það er ekki ennþá orðið gott en ég finn að það lagast með hverjum mánuðinum.

Varstu frá vinnu?

Ég var frá vinnu í fjóra mánuði en kom aftur um áramótin í 50% starf, sem ég mæli ekki með. Ég hefði átt að vera lengur frá og ná mér almennilega, því það er svo erfitt að stjórna því að vera í 50% starfi. Þó viðveran sé kannski 50% þá fór ég strax aftur í það að vinna og svara póstum á kvöldin og náði ekki að stoppa mig af.

Hvernig kom vinnustaðurinn til móts við þig?

Þar sem ég vinn hjá norsku fyrirtæki voru yfirmenn mínir með fullan skilning á mínum veikindum enda eru þetta betur þekkt veikindi á Norðurlöndunum. Yfirmaður minn hafði sjálf lent í þessu svo að mér var sýndur mikill skilningur.

Áttu góð ráð til þeirra sem finna fyrir einkennum kulnunar en vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við?

Oftast held ég að það séu yfirmenn, samstarfsmenn, maki eða vinir sem taka eftir þessu löngu áður en maður gerir það sjálfur. Við þurfum að vera vakandi yfir hvort öðru og fylgjast með ef fólk fer að haga sér einkennilega eða öðruvísi en það er vant, þá er kominn tími til að tala við viðkomandi. Þetta er viðkvæmt mál svo fara verður varlega að fólki. Ég fór í það að „googla“ einkennin og það er líka hægt að taka próf á netinu. Einnig hef ég heyrt mjög góða hluti um VIRK, þau hafa hjálpað mörgum. Fyrst og fremst verður fólk að leita sér hjálpar, það fer engin í gegnum „burnout“ einn.

Vinnan okkar í dag er orðin svo breytt frá því sem var, nú þykir sjálfsagt að við séum til staðar allan sólarhringinn, svörum tölvupóstum og símtölum strax en þannig var það ekki fyrir nokkrum árum. Bilið milli vinnu og einkalífs fer sífellt minnkandi.

Það er einnig svo margt í okkar lífi í dag sem eykur á streitu. Það eru endalausar æfingar hjá krökkunum okkar og miklar kröfur að foreldrar fari með og á leiki allar helgar. Fólk þarf að vinna 150-200 % vinnu, sinna öllu öðru, líta vel út, fara í jóga og út að hlaupa og listinn er endalaus! Ekki hjálpa samfélagsmiðlarnir til, alls staðar er fólk með fullkomið heimili, er að baka, úti að veiða með krökkunum og þú setur þá kröfu á sjálfa/n þig að svona verði þetta að vera sem er bara ekki í lagi. Einhvers staðar gefur eitthvað sig. Við verðum að hugsa betur um okkur sjálf , gefa okkur tíma til að vera til og sinna heilsunni, sem er það mikilvægasta sem við eigum.

Það er langt og erfitt ferli að fara í kulnun og óska ég þess engum. Ég held reyndar að það sé miklu meira um „burnout“ en við gerum okkur grein fyrir, því margir eru feimnir eða skammast sín að lenda í þessum aðstæðum en ég held við verðum að opna betur umræðuna og vera ófeimin að ræða þetta á opinskáan hátt. 

 

 

 

 

 

„Vinnan okkar í dag er orðin svo breytt frá því sem var, nú þykir sjálfsagt að við séum til staðar allan sólarhringinn, svörum tölvupóstum og símtölum strax en þannig var það ekki fyrir nokkrum árum“