Vinnutími

Vinnutími skv. samningi VR og SA

Starfsmenn í afgreiðslu:

Dagvinnutími er frá kl. 9:00 til 18:00 alla virka daga og skal vera samfelldur. Heimilt er að dagvinnutími hefjist fyrir kl. 9:00 að morgni en þó aldrei fyrir kl. 7:00.

Virkur vinnutími afgreiðslufólks er 35,83 klukkustundir. Séu kaffitímar teknir lengist vinnutíminn sem því nemur og verður 38,75 klukkustundir. Vinnutíma skal hagað með samkomulagi milli starfsfólks og atvinnurekenda eftir því sem hentar á hverjum stað.

Á aðfangadag og gamlársdag, beri þá upp á virka daga, er dagvinnutímabil til kl. 12:00 á hádegi. Fyrsta vinnudag eftir jól skal dagvinna í verslunum hefjast kl. 10:00.

Starfsmenn á skrifstofu:

Dagvinnutími er frá kl. 9:00 til 17:00 alla virka daga og skal vera samfelldur. Virkur vinnutími skrifstofufólks og sölumanna er 35.50 klukkustundir á viku. Séu kaffitímar teknir lengist vinnutíminn sem því nemur og verður 36,75 klukkustundir á viku. Vinnutíma skal hagað með samkomulagi milli starfsfólks og atvinnurekenda, með lengingu daglegs vinnutíma fyrir kl. 9:00, eftir kl. 17:00 og/eða styttri matartíma.

Á aðfangadag og gamlársdag, beri þá upp á virka daga, er dagvinnutímabil til kl. 12:00 á hádegi. 

Vinnutími skv. samningi VR og FA

Dagvinnutími er frá kl. 7:00 til kl. 19:00 alla virka daga. Dagvinnutími skal falla innan þessara marka og vera samfelldur. Virkur vinnutími á viku er 35 klst. og 30 mínútur.

Skipuleggja má vinnutíma fyrirfram í fyrirtæki þannig að ljóst sé hvernig vinnu verður háttað á tímabilinu. Vinnutíma starfsmanna í fullu starfi og starfsmanna í hlutastarfi má þá haga þannig að vikulegur vinnutími sé breytilegur á milli kl. 07:00 til 19:00 mánudaga til föstudaga, en þó að hámarki í 16 vikur. 

  • Hámarksvinnutími á 16 vikna tímabili: Meðalvinnutími reiknaður á allt að 16 vikna tímabili má ekki vera lengri en 48 vinnustundir og er þá yfirvinna meðtalin, sbr. samkomulag um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma.
  • Breytingar á vinnutíma: Breytingar sem kunna að verða gerðar á vinnutímanum skulu að jafnaði liggja fyrir með 4 vikna fyrirvara.
  • Fyrirkomulag launa: Fyrir allar vinnustundir í viku, allt að 35 klst. og 30 mínútur, skal greiða með venjulegum launum, hvort sem um starfsmenn í hlutastarfi eða starfsmenn í fullu starfi er að ræða.
  • Vinna umfram 45 klst. á viku: Fari vinnutími á tilteknu tímabili fram úr 45 vinnustundum skal greiða yfirvinnukaup fyrir tímana sem eru umfram 45 á viku svo og fyrir tímann frá kl. 19:00 til 07:00 þó að ekki sé farið fram úr eðlilegri, vikulegri vinnutímaviðmiðun að meðaltali á tímabilinu.

Eftir-/nætur- og yfirvinna

Öll vinna sem unnin er utan dagvinnutímabils telst til eftir- eða yfirvinnu. 

Matar- og kaffitímar

.. skoðaðu hér helstu atriði varðandi matar- og kaffitíma

Klukk - tímaskráningarapp

Klukk er einfalt tímaskráningarapp sem hjálpar þér að halda utan um vinnutímana og er frítt. Með appinu hefur þú yfirsýn yfir unnar vinnustundir og getur borið saman við launaseðilinn þinn. Appið getur einnig minnt þig á að klukka þig inn og út, ef þú virkjar staðsetningarbúnaðinn. 

Náðu þér í Klukk í AppStore eða á GooglePlay.