Skrifað hefur verið undir kjarasamninga VR við Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda sem fela í sér nýja nálgun til bættra lífskjara. Áhersla á kjarabætur til þeirra sem hafa lægstu launin er rauði þráðurinn í samningnum en um það er almenn sátt í samfélaginu.

Kjarasamningur VR við SA var samþykktur með 88,35% atkvæða og kjarasamningur VR við FA var samþykktur með  88,47% atkvæða.

Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamningana fór fram á vef VR dagana 11.- 15. apríl sl. 

Nýir kjarasamningar

Samið var um krónutöluhækkanir eins og lagt var upp með í upphafi samningaviðræðna en auk þess eru launahækkanir að hluta tengdar þróun hagvaxtar og er gert ráð fyrir árlegri endurskoðun taxtalauna í ljósi launaþróunar á almennum vinnumarkaði. Þá er vinnuvikan stytt, en það var eitt helsta áherslumál VR í samningaviðræðunum, og sveigjanleiki aukinn. Eitt meginmarkmið samningsins er að stuðla að vaxtalækkun sem eykur ráðstöfunartekjur heimilanna. Gildistími samningsins er frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022.

Kynningarfundur nýrra kjarasamninga

Kynningarfundur vegna nýrra kjarasamninga var haldinn á Hilton Reykjavík Nordica, mánudaginn 8. apríl. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hélt kynningu á nýjum samningum og Drífa Snædal, forseti ASÍ, kynnti aðgerðir stjórnvalda. Hér fyrir neðan má sjá glærur frá kynningunum.