Orlofsuppbót

Orlofsuppbót skv. kjarasamningum VR er kr. 51.000 fyrir árið 2020 m.v. fullt starf. Orlofsuppbót skal greiða eigi síðar en 1. júní 2020.

Orlofsuppbót er föst tala og tekur ekki launabreytingum skv. öðrum ákvæðum kjarasamnings. Skattar og skyldur, félagsgjöld og lífeyrissjóður greiðast af orlofsuppbót. Orlof greiðist ekki ofan á orlofsuppbótina.

 

Hverjir eiga rétt á orlofsuppbót?

Fullt ársstarfs telst í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Uppbótin greiðist þann 1. júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða eru í starfi fyrstu viku í maí.

Hægt er að reikna með unnum tímum og er þá 1.743,75 unnar stundir hjá afgreiðslufólki og 1.653,75 unnar stundir hjá skrifstofufólki fullt ársstarf. Skv. kjarasamningi VR og FA er fullt ársstarf 1.597,5 stundir ef reiknað er með unnum tímum.

Orlofsuppbót innifelur orlof, eru föst tala og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum. Áunna orlofsuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.

Ávinnsla orlofsuppbótar í fæðingarorlofi

Eftir eins árs starf hjá sama atvinnurekanda teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning orlofsuppbótar. Sama gildir ef kona þarf af öryggis­ástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Frí gegn orlofsuppbót

Heimilt er með samkomulagi milli starfsmanns og atvinnurekanda að fella niður eða lækka orlofsuppbót og veita samsvarandi frí í staðinn, sem tekur mið af launum hvers og eins. Frí þetta skal veita í heilum eða hálfum dögum.

Hver er þín orlofsuppbót?

Þú getur reiknað út orlofsuppbótina þína.

Orlofsuppbætur

2019     kr. 50.000 auk orlofsuppbótarauka kr. 26.000 til greiðslu 2. maí 2019

2020     kr. 51.000 til greiðslu 1. júní 2020

2021      kr. 52.000 til greiðslu 1. júní 2021

2022      kr. 53.000 til greiðslu 1. júní 2022